Ljóskerið

Frá fornöld hefur verið verstöð og útræði hér á Akranesi, ekki aðeins heimamanna því einnig gerðu héðan út menn víðs vegar af landinu og gekk bærinn um langt skeið undir nafninu Skipaskagi. Sjávarútvegur var aðalatvinnugrein okkar Skagamanna langt fram að þúsaldamótum og hefur haft mótandi áhrif á samfélagið og menninguna hér í bæ. 

Fyrstu vitar við Faxaflóa voru reistir eftir 1880 og voru það svokallaðir vörðuvitar eða fiskimannsvitar með einföldu ljóskeri til að lýsa sjófarendum leið. Fyrsti vísir að vita á Akranesi var ljósker á 7 metra háum staur sem reistur var inni á lóð bæjarins Teigakots, en hann stóð efst á Akurshól fyrir suðurenda götunnar Vitateigs. Það var Björn Ólafsson (1857-1890) húsmaður í Oddsbæ sem átti hugmyndina um vitabyggingu á Akranesi og bar hana upp á fundi Æfingarfélagsins sem stofnað var árið 1882 og lét ýmis framfaramál til sín taka. Sigurður Jónsson (1843-1935) járnsmiður byggði mannvirkið í janúar árið 1890, en ekki var kveikt á ljóskerinu fyrr en rúmu ári seinna eða þann 1. mars 1891 vegna vangaveltna um rekstur vitans og hnattstöðu hans.

Fyrsti gæslumaður vitans, Bjarni Jörundsson smiður á Litlateig (1853-1901), hóf störf strax árið 1890 þrátt fyrir að ekki væri búið að kveikja á vitanum og gegndi hann því starfi í eitt ár. Magnús Magnússon Hólm húsmaður í Teigakoti, tók við af honum í febrúar árið 1891, en Magnús drukknaði í róðri þann 16. nóvember sama ár. Ekki er vitað hverjir gegndu vitavörslu næstu ár þar á eftir. Staurinn með ljóskerinu stóð á Akurshól þar til gamli vitinn á Breið var byggður á Suðurflös árið 1918.

Ljóskerið á Akurshólnum er reist til minningar um þetta fyrsta leiðarljós hér í bæ. Lýsing á ljóskerinu sem reist var má finna í fundargerðabók Æfingafélagsins frá 26. desember 1889 og upp úr henni var unnin teikning af Bjarna Þór Bjarnasyni sem birtist í Árbók Akurnesinga 2011. Nú lýsir endurgert ljósker að nýju á Akurshól og minnir á mikilvægi ljóssins í að lýsa okkur leiðina heim.

Hér er hægt að lesa frétt um vígslu minnisvarðans á Akurshólnum 20. desember 2018.