Þann 9. mars árið 1924 ákváðu níu drengir á fermingaraldri að stofna knattspyrnufélag á Akranesi. Félagið var nefnt Knattspyrnufélagið Njörður en árið 1927 var því breytt í Knattspyrnufélag Akraness. Fyrsti formaður félagsins var Jón Árnason.
Árið 1922 hafði Knattspyrnufélagið Kári verið stofnað á Akranesi og áttu þessi félög eftir að eiga gott samstarf. Sem dæmi má nefna að félögin áttu s
tóran þátt í gerð íþróttavallar á Jaðarsbökkum og byggingar íþróttahúss við Laugarbraut. Auk þess héldu félögin margar skemmtanir og samkomur.
Árið 1924 kepptu KA og Kári í fyrsta skipti um „Knattspyrnubikar Akraness“ en þann bikar hafði Skafti Jónsson skipstjóri gefið. Kári hafði betur í þessum fyrsta leik en KA átti eftir að sanna sig síðar meir.
Knattspyrnufélag Akraness gekk í Íþróttasamband Íslands árið 1930 og fékk þar með staðfestingu á sínu starfi og leikmannabúningum.
Axel Andrésson var fyrsti formlegi þjálfari KA og Kára, en hann var ráðinn árið 1933.
Í afmælisblaði KA frá árinu 1949 sagði Jón Árnason:
„Engan íþróttavöll höfðum við þá, en í þess stað höfðum við kálgarðana og stundum túnbletti. Voru kálgarðarnir girtir með margföldum gaddavír, en það var mjög óheppilegt upp á endingu knattarins, enda fór svo, að hann sprakk aftur og aftur, unz blaðran varð ónýt og yfirleðrið lélegt.
Ég minnist þess einu sinni, að við vorum nýbyrjaðir á æfingu og boltinn lenti illa í gaddavírnum, svo að blaðran hengilrifnaði, og var ekkert viðlit að gera við hana. Tókum við þá utanyfirleðrið, fórum upp í Setbergshlöðuna og tróðum „tuðruna“ fulla af heyi, og héldum síðan æfingunni áfram. Þannig var það oftar með knettina, þeir voru ekki alltaf „fyrsti klassi“.“
Þann 3. febrúar 1946 var Íþróttabandalag Akraness stofnað og gengur bæði KA og Kári inn í það félag og kepptu eftir það undir því merki.
Við höfum nú sett afmælisblað KA frá 1949 inn á miðlunarvefinn okkar.