Knattspyrnufélagið Kári á sér langa sögu á Skaganum. 26. maí árið 1922 söfnuðust nokkrir drengir saman í kálgarðinum hjá Árnabæ og hófust umræður um möguleikana á því að stofna knattspyrnufélag á Akranesi, því þá var ekkert formlega stofnað knattspyrnufélag hér í bæ. Var mikill áhugi fyrir málinu og svo fór að allir urðu sammála um að stofna félagið. Hinir eiginlegu stofnendur urðu þó ekki fleiri en tíu (ekki nóg í eitt lið). Þeir voru á aldrinum 10 til 14 ára. Um haustið 1922 var endanlega gengið frá stofnun Kára og samþykkt lög fyrir félagið. Var Sveinbjörn Oddsson hjálplegur hinum ungu félögum við samningu þeirra. Kári starfaði til ársins 1986 er það var lagt niður.
13. apríl 2011 var Knattspyrnufélagið Kári formlega endurvakið og var ákveðið að spila undir gamla merki félagsins sem og að hafa sama útlit á búningunum eins og þeir voru í upphafi.
Á þessu ári eru 100 ár síðan að Kári var stofnaður. Því er það okkur mikið ánægjuefni að tilkynna að nú eru komin nokkur rit sem tengjast félaginu á miðlunarvefinn okkar. Einnig er komin stutt umfjöllun inn í Fróðleikskistuna okkar um félagið. Endilega skoðið þessar skemmtilegu heimildir um þetta merkilega félag. Góðar stundir.