Í lögum ÍSÍ þess tíma var ákvæði um að íþróttaráð skyldi stofna á hinum ýmsu stöðum á landinu og hlutverk þess væri að fara með yfirstjórn íþróttamála í héraði. Í kjölfar þess var Íþróttaráð Akraness stofnað 31. maí 1934.
Fyrsti fundur ráðsins var haldinn 6. júní 1934 í versluninni Frón og fyrsti formaður ráðsins var Axel Andrésson en ÍSÍ skipaði fyrstu stjórn ráðsins.
Ráðið fór strax að skipuleggja íþróttamál bæjarins og var fyrsta mótið haldið að Jaðarsbökkum 17. júní 1934.
Íþróttaráð Akraness starfaði til 3. febrúar 1946 þegar Íþróttabandalag Akraness varð til og tók við starfsemi ráðsins. Síðasti formaður þess og jafnframt fyrsti formaður ÍA var Þorgeir Ibsen.
Nú eru gjörðabók og dagbók frá Íþróttaráði Akraness komnar inn á miðlunarvefinn okkar. Endilega skoðið þessar merku heimildir um sögu íþróttamála á Akranesi.