Árið 1886 var á Akranesi stofnað félag af Hallgrími Jónssyni hreppstjóra og séra Jóni Sveinssyni og var það nefnt „Æskufélagið á Akranesi“.
Í lögum félagsins segir: „Tilgangur fjelagsins er að fjelagsmenn vandi allt sitt framferði til orða og verka, nemi sem flestar íþróttir til munns og handa, og sýni sparsemi og þrifnað í öllum hlutum“. Einstaklingur þurfti að vera orðinn 8 ára til að verða félagsmaður.
Fyrsti fundur þess var haldinn 18. desember 1886 þar sem nefnd var kosin fyrir félagið. Kristmann Tómasson á Bjargi var kosinn formaður. Með honum í stjórn voru Jón Árnason, Kristinn B. Thorsteinssen, Georg G. Thorsteinssen, Jónas B. Erlendsson, Benidikt B. Árnason og Teitur Guðmundsson. Í félaginu voru 26 meðlimir.
Félagið starfaði í 10 ár en á fundi 11. janúar 1896 var ákveðið að skrifa niður skipulagsskrá þar sem tilgreint var um slit félagsins og hvernig fjármunum þess yrði ráðstafað. Þá voru meðlimir orðnir mjög fáir, en árið 1888 var unglingastúka Góðtemplarareglunnar stofnuð og fór þá meiri hluti félagsmanna yfir í hana.
Nú hefur gjörðabók félagsins verið ljósmynduð og hún sett inn á miðlunarvef Héraðsskjalasafnsins. Endilega farið inn á miðlunarvefinn okkar og skoðið bókina.